Sýningar á bókasafni

Gallerí veggur

Haustið 2004 fékk Guðrún Hannesdóttir, skáld og bókasafnsfræðingur, þá hugmynd að vera með sýningar á bókasafninu með verkum kennara og annars starfsfólks skólans. Það leiddi til stofnunar Gallerís veggs, sem enn hefur aðstöðu á safninu. Gallerí veggur heldur sex sýningar á ári og standa þær að jafnaði yfir í um 4-6 vikur

Ljósmyndari Gallerís veggs er Sigurjón Gunnarsson

XGeo - JBK Ransu

Sannleikurinn liggur mitt á milli allra öfga.“  Gautama Buddha

XGeo er tilraun til að sameina tvær ólíkar, jafnvel andstæðar, aðferðir eða nálganir málaralistar á einum fleti. Abstrakt expressjónisma annars vegar og geómetríu hins vegar. Ég tek fyrir slettumálverk sem ígildi og öfgar abstrakt expressjónisma og símynstur sem ígildi og öfgar geómetríunnar. Að sama skapi er slettan úthverf nálgun við málverk ólíkt símynstri sem mundi teljast innhverf nálgun. JBK Ransu

 

 

 

JBK Ransu er deildarstjóri í diplómanámi í málaralist.

Sýningin stendur yfir frá 24. mars - 9. maí

Þetta verður allt í lagi – Margrét M. Norðdahl

Nú stendur yfir sýning Margrétar M. Norðdahl á verkinu Þetta verður allt í lagi í Gallerí Vegg á bókasafni Myndlistaskólans í Reykjavík. Verkið samanstendur af staðhæfingunni Þetta verður allt í lagi og ljósmyndum af fólki sem teknar voru að loknu ákveðnu ferli. Verkið er sett fram á Gallerí Vegg og hluti þess er sýndur á samskiptamiðlum

Á bókasafninu er staðhæfingin Þetta verður allt í lagi skrifuð með nöglum og þrædd með múrbandi á gallerívegginn og á gólfi er ljósmynd af liggjandi manneskju í fullri stærð. Að auki eru ljósmyndir með sömu staðhæfingu í dreifingu á samskipta- miðlum merktar #þettaverðuralltílagi

Í aðdraganda sýningarinnar stóð Margrét ásamt Hjördísi Árnadóttur fyrir viðburðum sem fólki var boðin þátttaka í. Hver viðburður fól í sér ákveðið ferli æfinga, slökunar, hugleiðslu og heilunar. Í lok hvers viðburðar voru þátttakendur myndaðir. Viðburður- inn verður endurtekinn á sýningartímanum og auglýstur á vettvangi bókasafnsins og á samskiptamiðlum

 

 

 

Margrét M. Norðdahl stundaði nám í Listaháskóla Íslands og Kuvataideakatemia í Helsinki. Margrét hefur tekið þátt í samsýningum, haldið einkasýningar og sinnt sýningarstjórn og kennslu ásamt öðrum störfum. Margrét er deildarstjóri diplóma- náms í myndlist fyrir fólk með þroskahömlun í Myndlistaskólanum í Reykjavík  

Sýningin stendur til 22. mars

 

Eléments de la Peinture ­– Grunnþættir málverksins - Einar Garibaldi Eiríksson

Nú stendur yfir sýning Einars Garibalda Eiríkssonar á verkinu Eléments de la Peinture ­– Grunnþættir málverksins á bókasafni Myndlistaskólans í Reykjavík. Verkið ­samanstendur af röð 17 nýrra málverka sem voru sérstaklega unnin af þessu tilefni. Í verkinu birtist okkur samansafn einfaldra táknmynda er vísa okkur inn í töfrandi heim gjörðarinnar að mála myndir. Í því tekst Einar á við þá lifandi og fjölþættu umræðu sem átt hefur sér stað um málverkið á undanförnum árum, um leið og hann rekur upp ýmsa kunnuglega þræði er varða hina sögulegu réttlætingu miðilsins innan listfræða og heimspeki. Verkið fjallar þannig að vissu leyti um sjálft sig og tilurð sína um leið og það vekur upp spurningar um hlutverk og eðli málverksins sem miðils í nútíma samhengi. Þannig felur verk Einars Eléments de la Peinture ­– Grunnþættir málverksins að vissu leyti í sér ákveðna tilgátu um málaralistina

 

 

Einar Garibaldi Eiríksson stundaði nám í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og Accademia di Belle Arti di Brera í Mílanó á Ítalíu. Einar hefur tekið þátt í fjölda sýninga heima og erlendis, ásamt því að vera sýningarstjóri og kennari. Einar hefur verið deildarstjóri sjónlistadeildar Myndlistaskólans í Reykjavík síðan 2015. Allar frekari upplýsingar um verk hans má finna á heimasíðu hans: www.einargaribaldi.is

Sýningunni er lokið

 

Sýningar árið 2016

Kvennatími, hér og nú 30 árum síðar - Ína Salóme Hallgrímsdóttir

Nú stendur yfir sýning á tveimur vatnslitamyndum eftir Ínu Salóme. Kveikjan að myndunum er teikning í manngerðu umhverfi og náttúru.

Myndirnar eru hluti af samnefndri sýningu á Kjarvalstöðum haustið 2015, sem sett var upp í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna. Á sýningunni gat að líta verk eftir á þriðja tug kvenna sem áður sýndu saman á sýningunni Hér og nú á Kjarvalstöðum árið 1985 á listahátíð kvenna

 

 

Ína er menntaður myndmenntakennari frá Myndlista- og handíðaskólanum. Hún stundaði framhaldsnám í Svíþjóð og Danmörku þar sem áherslan var lögð á textíl

Ína Salóme er myndmenntakennari við barnadeild Myndlistaskólans í Reykjavík og starfar einnig á skrifstofu skólans

Sýningunni lýkur 16. desember

 

Gleðin er svört - Kristín Gunnlaugsdóttir

Kristín Gunnlaugsdóttir fæddist á Akureyri 1963. Hún stundaði nám við Myndlistaskólann á Akureyri og útskrifaðist úr MHÍ 1987.  Hún nam við Accademia di belle Arti í Flórens frá 1988 til 1995. Kristín hefur starfað sem myndlistarmaður síðan og býr á Seltjarnarnesi.


Teikningarnar á Gallerí vegg eru hluti af 12 mynda teikniseríu sem hún gerði fyrir sýningu í Læknaminjasafninu í Nesstofu 2014 og heitir Gleðin er Svört. Teikningarnar eru á pappír með vatnslit. Fleiri verk úr seríunni ásamt öðrum verkum Kristínar er að finna á heimasíðu listamannsins: kristing.is

 

 

Kristín er stundakennari við Diplómadeild í málun

Sýningin stóð frá 4. október til 8. nóvember 2016

 

Foreldrar - Áslaug Thorlacius

Nú stendur yfir sýning Áslaugar Thorlacius, á verki sem hún kallar Foreldrar en það samanstendur af tveimur tvöföldum portrettum, annars vegar af foreldrum hennar og hins vegar tengdaforeldrum. Portrettin, sem gerð eru með blýanti, vatnslit og bleki á pappír, vann Áslaug árið 2010 fyrir sýningu sem hún hélt ásamt eiginmanni sínum Finni Arnari Arnarsyni og fjórum börnum þeirra í Listasafni ASÍ. Sýningin bar yfirskriftina Þar spretta laukar en umfjöllunarefni fjölskyldunnar á sýningunni var fjölskylda og heimili

 

 

Áslaug hefur verið skólastjóri Myndlistakólans frá 2014 

Sýningunni lauk 28. september 

 

Flæðarmál - Hafdís Helgadóttir

Sýning Hafdísar Helgadóttur á verkum úr seríunni Flæðarmál 2013 sem opnaði um mánaðamótin mars-apríl er lokið.

Texti með verkum:  Ég þræði mig eftir hvítri ströndinni með myndavélina og smám saman lifnar fyrir augunum myndefni; þarasveigar og smágerð för sem sitja eftir þegar aldan hefur skilað þeim á þurrt. Þarinn tekur að líkjast táknum sem eru einstök hvert fyrir sig, eins og letruð séu mikilvæg skilaboð sem ráða þurfi í, eitthvað um heiminn og jörðina, eitthvað fallegt eða ógnvænlægt. En þessi tákn eru ólæsileg í þeim skilningi að tákn eigi sér stað innan tungumáls eða félagslegrar umgjarðar sem leiðir hugann að mörkum tungumálsins og að innihaldi þess sem er handan orðanna og að allt hafi merkingu

 

 

Ljósmyndirnar eru teknar á Vestfjörðum og unnar á prentverkstæði myndlistamanna BBK í Berlín. Hafdís Helgadóttir lauk meistaragráðu við Listakademíuna í Helsinki 1996 og lauk þar á undan  námi í málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Hafdís hefur verið fastráðinn starfsmaður á skrifstofu Myndlistaskólans frá árinu 2003

Sýningunni lauk 12. maí

 

Hugleiðingar í leir - Ólöf Erla Bjarnadóttir

Sýning Ólafar Erlu Bjarnadóttur, Hugleiðingar í leir, lauk í lok mars en nokkrir munir eru þó enn á bókasafninu

Ólöf hefur fyrir löngu haslað sér völl á sviði nytjalistar og skrautmuna en hér kveður við annan tón. Hún gerir tilraunir með aðferðir og form og tengir jafnvel saman fortíð og nútíð með eftirmynd af eftirmynd þar til hún er komin með örlítið brotabrot af minningum í einstökum munum

 

 

 

Ólöf Erla hefur verið deildarstjóri diplómanáms í mótun um árabil

 

The story of your life - Haraldur Jónsson

Hinn 13. janúar 2016 opnaði sýning á verkum Haraldar Jónssonar. Myndirnar eru úr seríunni TSOYL sem Haraldur hefur unnið að undanfarinn aldarfjórðung. Þær birta augnablik og aðstæður sem liggja á mörkum hins ósegjanlega.

 

 

Haraldur hefur um árabil kennt við Myndlistaskólann og nú í upphafi árs 2016 leiðir hann námskeið í menningarlæsi sem snýst um skynjun og túlkun

Á síðasta ári færði Haraldur bókasafni skólans tvær bækur að gjöf; Tsoyl, the story of your life og bókverkið Hold. Þessi höfðinglega gjöf er öllum aðgengileg á safninu

 

Sýning árið 2015

Bækur verða til - Anna Cynthia Leplar

Sýning Önnu Cynthiu Leplar, Bækur verða til, opnaði í byrjun september 2015. Þar sýnir hún nokkrar af myndskreytingum sínum við The wind in the willows eftir Kenneth Grahame og Litla sögu um latan unga eftir Guðrúnu Helgadóttur, ásamt bókunum sjálfum

 

 

Anna Cynthia Leplar lauk BA-prófi frá Ruskin School of Drawing við Oxford háskóla og kennaraprófi frá LHÍ. Anna Cynthia er deildarstjóri í diplómanámi í teikningu við Myndlistaskólann í Reykjavík, auk þess sem hún myndskreytir og hannar bækur